Höfði I

Grýtubakkahreppi

Æðarvarpið í Höfða er nokkuð stórt. Það er á mjóum skaga sem gengur suður úr Höfðanum en einnig í litlum hólma (Nunnuhólma) rétt undan ströndinni. Öll umhirða varpsins er í höndum ábúenda, en mikil vinna er í því fólgin að hirða varpið og verja það gegn ágangi vargs. Mesti vargurinn í varpinu er hrafnar og mávar, en einnig minkur og tófa. Mink hefur verið nánast útrýmt í Eyjafirði en stöku flökkudýr geta verið á ferðinni.
Gengið er um varpið á vorin og hengd upp lítil flögg og veifur sem hræða frá flugvarg og lokka æðarfuglinn í skjól. Gjarnan er maður í varpinu um lengri eða skemmri tíma til að verja það.  Æðarkollurnar verpa þétt saman og fóðra hreiðrin með dúni sem hver kolla fellir af bringunni. Síðan liggja kollurnar á eggjunum í ca 3 vikur og nærast sjálfar lítið sem ekkert þann tíma. Um leið og ungarnir eru orðnir þurrir teymir kollan þá til sjávar og kemur ekki aftur í hreiðrið. Í júní förum við um varpið og tínum dún úr lausu hreiðrunum. Dúnninn er breiddur heima og þurrkaður í sólinni, jafnframt er eggjaskurn og annað gróft rusl hrist úr dúninum. Dúnninn er svo fullþurrkaður í þurrkara við 120 gráður og allt fínt rusl er hreinsað úr í vél. Þá tekur við mikil nákvæmnisvinna þegar dúnninn er fjaðratíndur í höndunum. Það tekur manninn einn dag að fjaðratína eitt kíló af dún, en í þessu kílói eru 60-70 hreiður.
Við erum með heimasölu á æðardúnssængum, ungbarnasængum og svæflum gegnum „Beint frá býli“ (http://beintfrabyli.is/hofdi_i). Allar nánari upplýsingar veitir Þórdís Þetta netfang er varið fyrir ruslpósti. Þú þarft að virkja Javascript til að sjá það.">Þetta netfang er varið fyrir ruslpósti. Þú þarft að virkja Javascript til að sjá það. eða í síma 463 3161 og 894 5363.

Höfði I - Grýtubakkahreppi - 601 Akureyri